Lög skátafélagsins Mosverja samþykkt á aðalfundi 19. febrúar 2018

1.gr

1.1.
Félagið heitir Skátafélagið Mosverjar. Heimili þess og starfsvæði er í Mosfellsbæ.

1.2.
Félagið er aðili að Bandalagi íslenskra skáta með aðild A og ber að starfa eftir lögum þess og grunngildum. Starfi skátasamband á svæðinu getur félagið verið aðili að því.

2. gr
Tilgangur félagsins er að skapa ungu fólki tækifæri til þess að stunda skátastarf í öruggu umhverfi sem byggir á grunngildum BÍS.

Grunngildi Bandalags íslenskra skáta eru af þrennum toga:

 1. Samfélagsleg gildi sem tengjast hlutverki skátahreyfingarinnar:
  1. a. Skátahreyfingin er alþjóðleg uppeldis- og friðarhreyfing sem stuðlar að menntun ungs fólks með sjálfsnámi.
  2. b. Skátahreyfingin er opin öllum og óháð stjórnmálasamtökum.
 2. 2. Siðferðileg gildi sem finna má í:
  1. a. Skátaheiti.
  2. b. Skátalögum.
  3. c. Kjörorði skáta. 
 3. 3. Aðferðafræðileg gildi sem fólgin eru í Skátaaðferðinni og byggja á:
  1. a. Stigvaxandi sjálfsnámi.
  2. b. Kerfi innbyrðis tengdra lykilþátta.

Grunngildi Bandalags íslenskra skáta mynda sameiginlega grundvöll skátastarfs og skilgreina þannig sérstöðu þess.

3. gr

3.1.
Skátastarf miðast við þarfir allra einstaklinga að svo miklu leyti sem aðstæður skátafélagsins leyfa.
Skátafélagið Mosverjar virðir sérhverja lífsskoðun sem samræmist skátaheitinu og skátalögunum. Í skátastarfi og við inngöngu nýliða skal virða og engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna.
Skátafélagið Mosverjar starfar sjálfstætt og hafnar öllum þrýstingi, hvort sem hann er af pólitískum, trúarlegum eða efnahagslegum toga.
Skátafélagið Mosverjar eru hlutlaus í stjórnmálum.
Hverjum einstökum skáta er frjálst að taka að vild þátt í stjórnmála-og atvinnustarfsemi enda láti hann hvorki stjórnmálaskoðanir sínar né störf hafa áhrif á skátastarf sitt.
Í samræmi við tilgang sinn og markmið vill skátafélagið Mosverjar stuðla að friði meðal manna og þjóða, leggja lið aðgerðum í þágu málefna barna, friðar og jafnréttis og leggur áherslu á að skátar beri virðingu fyrir umhverfi sínu.
Fullgildir félagar teljast þeir sem greitt hafa árgjald fyrir yfirstandandi starfsár, eða samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

3.2.
Styrktarfélagi og/eða hjálparfélagi getur hver og einn borgari orðið sem óskar þess og stjórn félagsins samþykkir.

3.3.
Félögum ber að tileinka sér skátalögin og skátaheitið og starfa samkvæmt þeim, einnig að taka þátt í starfi á vegum félagsins. Þeim ber að fara að reglum þeim er stjórn félagsins setur um einstaka þætti starfseminnar.

3.4.
Fyrir brot á ákvæði þessu skal viðkomandi sveitarforingi beita áminningu. Fyrir ítrekað eða alvarlegt brot getur félagsráð beitt brottvikningu um stundarsakir eða að fullu. Sama á við um brot á öllum almennum velsæmisreglum og borgaralegum lögum.

4 gr.

4.1.
Aðalfund skal halda í félaginu á tímabilinu janúar-febrúar ár hvert. Til aðalfundar skal boða í það minnsta með auglýsingu í skátaheimili og á heimasíðu félagsins 10 dögum fyrir fund. Einnig skal senda fundarboð til Skátamiðstöðvarinnar. Vanræki stjórn að boða til aðalfundar vísast til laga BÍS um aðalfundi félaga.
Aðalfundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað. Ef fundurinn er ekki lögmætur skal boða framhaldsaðalfund innan fjögurra vikna og telst hann lögmætur ef rétt er til hans boðað.

4.2.
Rétt til fundarsetu hafa:

 • MEÐ ATKVÆÐISRÉTT: allir fullgildir félagar 16 ára og eldri, og auk þess forráðamenn fullgildra félaga sem eru 15 ára eða yngri. Þó er aðeins eitt atkvæði fyrir hvern skáta.
 • MEÐ MÁLFRELSI OG TILLÖGURÉTT styrktarfélagar, fulltrúi stjórnar BÍS og þeir er stjórn býður sérstaklega á fundinn, eða fundurinn ákveður. Að öðru leyti vísast til laga BÍS og skátasambands um rétt til fundarsetu.

4.3.
Dagskrá aðalfundar.

 1. Fundarsetning.
 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 3. Skýrsla stjórnar lögð fram til umræðu
 4. Ársreikningar lagðir fram til umræðu og afgreiðslu
 5. Starfsáætlun lög fram til umræðu og afgreiðslu
 6. Fjárhagsáætlun lögð fram til umræðu og afgreiðslu
 7. Lagabreytingar
 8. Kosningar samkvæmt grein 4 í lögum þessum
 9. Önnur mál
 10. Fundarslit

4.4. 

Aðalfundur kýs stjórn félagsins sem skipuð er sjö mönnum og skulu þeir allir vera fjárráða. Þá kýs aðalfundur einn skoðunarmann reikninga. Aðalfundur fer með æðsta vald félagsins. Stjórn félagsins stýrir félaginu á milli aðalfunda í umboði hans. Jafnframt getur stjórn skuldbundið félagið og eignir þess með ályktunum sínum og framkvæmdum. Til þess að skuldbinda félagið gagnvart öðrum þarf undirskrift formanns stjórnar og þriggja meðstjórnenda. Stjórninni er heimilt að ráða launaða starfsmenn að félaginu. Stjórn skipar fulltrúa félagsins á Skátaþing BÍS og aðalfund skátasambands í samráði við félagsráð. Stjórn félagsins ákveður árgjald félagsins. Stjórnin skiptir með sér verkum og embættum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Verkaskipting stjórnarmanna skal í aðalatriðum vera eftirfarandi.

 • FÉLAGSFORINGI er formaður stjórnar og er leiðtogi alls skátastarfs á vegum félagsins. Hann boðar til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Hann er málsvari félagsins gagnvart opinberum aðilum og gagnvart stjórn BÍS og annarra samtaka skáta. Félagsforingi skipar foringja og embættismenn félagsins og ber ábyrgð á starfsmannahaldi.
 • AÐSTOÐARFÉLAGSFORINGI er staðgengill félagsforingja og leiðir starf félagsráðs og leiðtogaþjálfun.
 • RITARI færir fundargerðir stjórnar, annast félagatal, bréfaskriftir og skjalavörslu félagsins. Hann fer með stjórn útgáfumála og skrifstofu.
 • GJALDKERI annast fjárreiður félagsins, bókhald, fjárvörslu og ávöxtun fjár. Hann ber ábyrgð á fjáröflunum félagsins.
 • MEÐSTJÓRNENDUR eru aðrir stjórnarmenn og sinna þeir tímabundnum verkefnum.

Í félaginu skal starfa félagsráð sem í sitja sveitarforingjar og stjórnarmenn.
Kjörtímabil stjórnarmanna annarra en félagsforingja er tvö ár og skal kjósa þrjá á hverjum aðalfundi. Félagsforingja skal kjósa hvert ár á aðalfundi. Stjórnarmaður skal eigi vera lengur í stjórn en sex ár samfellt. Aðalfundur getur veitt undanþágur frá því. Forfallist stjórnarmaður skipar félagsráð annan í hans stað fram að næsta aðalfundi.

 

5. gr.
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga þurfa að hljóta stuðnings 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna til að öðlast samþykki, og taka þá þegar gildi. Tillögur til lagabreytinga skal tilkynna í fundarboði.

6. gr.
Reikningar félagsins miðast við almanaksárið.

7. gr.
Hætti félagið starfsemi skal bæjarstjórn varðveita eignir félagsins. Hefji félagið eða viðurkenndur arftaki þess aftur skátastarf, tekur félagið við eignunum aftur.

8. gr.
Stjórn félagsins ber ábyrgð á framkvæmd þessara laga.

9. gr.
Lög þessi taka þegar gildi.